Umhverfið

Samkaup ætla að vera leiðandi í umhverfismálum á smásölumarkaði. Félagið ætlar að eiga frumkvæði að þróun og innleiðingu á leiðum sem stuðla að sjálfbærni í dagvöruverslunum. Samkaup leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og nýta auðlindir eins og kostur er.

Samkaup skrifuðu undir yfirlýsingu sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015 um aðgerðir í loftslagsmálum og hafa fylgt henni síðan. Helstu markmið eru:

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs.
  • Nota minna af óendurvinnanlegu hráefni og umbúðum, endurvinna og endurnýta.
  • Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

Umhverfisstefnan nær til allrar starfseminnar. Samkaup leggja áherslu á að efla vitund starfsmanna og áherslu á mikilvægi þess að starfsmenn hugsi um umhverfið í daglegum störfum og fylgi umhverfisstefnunni án undantekninga. Lög og reglur í umhverfismálum eru uppfylltar á öllum starfsstöðvum.

Við kaup á vöru og þjónustu er tekið mið af umhverfisstefnunni og gerðar skýrar kröfur til birgja og undirverktaka um að þeir fylgi henni. Á það einnig við um undirverktaka birgja.

Samkaup halda nákvæmt umhverfisbókhald um starfsemina. Bókhaldið skal nota til að ákvarða umfang og upphæðir til kolefnisjöfnunar rekstursins sem og gögn fyrir samfélagsskýrslu sem er gefin út árlega.

Á hverju hausti útlistum við umhverfismarkmið næsta árs, bæði stór og smá, og setjum mælanleg markmið fyrir hvert og eitt. Við tilkynnum markmið okkar opinberlega en starfsfólk okkar setur fyrirtækinu markmið á árlegum stjórnendadegi.

Samkaup gerðu tveggja ára samkomulag við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga árið 2020.
umhverfið

Hvað gerðum við árið 2021?

Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í umhverfismálum. Árið 2021 losuðum við t.a.m. 27% minna kolefni en árið áður þegar öll kolefnislosun fyrirtækisins, vegna sorps, rafmagns og eldsneytis, er tekin saman.

Lykiltölur umhverfisbókhalds 2021

Losun úrgangs

Magn úrgangs sem var losað minnkaði um 242 tonn milli ára, eða um 9,8%. Engin ein verslun stendur upp úr; þetta er afrakstur sameiginlegs átaks.

Hlutfall flokkaðs úrgangs

Hlutfalls þess úrgangs sem er flokkaður jókst lítillega milli ára eða um 2%. Nettó og Iceland flokka mest (58% alls úrgangs), í Kjörbúðum er hlutfallið 51% og Krambúðum 46%.

Raforkunotkun

Á milli ára minnkaði raforkunotkun Samkaupa um 1.786.219 kWst, eða um 10%. Vert er að minnast sérstaklega á CO₂ kæla í Krossmóa og Sunnukrika í þessu samhengi. Í Nettó Krossmóa einni og sér minnkaði raforkunotkun um 20% á milli ára. Raforkan sem sparaðist í þessari einu verslun er á við raforkunotkun 357 heimila.

Eldsneyti

Eldsneytisnotkun vegna aksturs minnkaði um 3.802 lítra milli ára, eða 8,36%.

CO losun

Á milli ára losuðum við 281 færri tonn af CO₂ ígildum þegar öll kolefnislosun fyrirtækisins, vegna sorps, rafmagns og eldsneytis, er tekin saman. Það er 27% minni kolefnislosun árið 2021 en árið 2020!

Heitavatnsnotkun er að mestu áætluð því ekki er hægt að styðjast við staðfest raungögn. Gert er ráð fyrir að hún hafi staðið í stað á milli ára.

Árangur í umhverfismálum 2021

Önnur markmið sem við settum okkur fyrir 2021 og náðum fram voru eftirfarandi.

Minni pappírsnotkun:

  • Tókum upp rafrænar hillumerkingar í stað límmiða.
  • Hættum að prenta út efni og sendum frekar með tölvupósti.
  • Hófum notkun á rafrænum kvittunum í Samkaupa-appinu.
  • Drógum úr póstsendingum og stefnum að því að hætta að senda út og taka á móti reikningum á pappír.

Minni sóun:

  • Minnkuðum umfang sorps úr verslunum um 50 tonn.
  • Meiri flokkun: Hlutfall almenns sorps varð 30%; pappi og plast 60% og lífrænt 10%.
  • Vogum komið fyrir í ávaxta- og grænmetisdeild svo fólk kaupi rétt magn.

Minni plastnotkun:

  • Drógum úr notkun einnota plasts í umbúðum og smásölu.
  • Bjóðum upp á fjölnota kaffimál.
  • Hófum sölu á bréfpokum.

Minni mengun:

  • Fækkuðum ferðum erlendis – fórum á fjarfundi í staðinn.
  • Hvetjum viðskiptavini til að drepa á bílum með merkingum á bílastæðum.
  • Keyptum rafbíla þegar kaupa þurfti nýja bíla.
  • Gengum frá samningum um hraðhleðslustöðvar og settum upp fyrstu stöðvarnar.
umhverfið

Vöktun umhverfisþátta

Til að vinna markvisst að bættum árangri hefur verið innleiddur umhverfisstjórnunarhugbúnaður frá Klöppum.

Með hugbúnaðinum er unnt að vakta og greina alla helstu umhverfisþætti í starfseminni og vinna að lágmörkun umhverfisáhrifa. Vöktunin nær til allra verslana og starfsstöðva Samkaupa.

Einn af kostum þess að nýta hugbúnaðinn frá Klöppum er að auðvelt er að mæla og fylgjast með kolefnisspori fyrirtækisins en eitt stærsta verkefnið er að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Losun CO₂ í tonnum.
  • Eldsneytisnotkun.
  • Rafmagnsnotkun.
  • Sorp.
  • Notkun á heitu vatni.
  • Notkun á köldu vatni.

Við áttum okkur á því að starfsemi okkar hefur neikvæð áhrif á umhverfið beint og óbeint. Aðgerðir okkar miða að því að lágmarka þessi áhrif og fara í mótvægisaðgerðir. 

Samkaup halda ótrauð áfram á vegferð sinni í átt að grænni framtíð.
umhverfið

Minni sóun

Allt frá árinu 2007 hefur starfsfólk Samkaupa stöðugt stigið fleiri skref í átt að meiri umhverfisvernd, allt frá aukinni sorpflokkun og almennri endurnýtingu til meiri orkusparnaðar og endurnýtingar orku. Um mitt ár 2015 tóku Samkaup upp átakið „Minni sóun – allt nýtt“ en átakinu er ætlað að kynna fyrir viðskiptavinum og starfsfólki hvað unnt sé að gera til að stuðla að minni sóun matvæla.

Allar verslanir Samkaupa bjóða nú stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag. Vöruverð lækkar eftir því sem líftími vöru styttist og stuðlar þetta að minni sóun matvöru. Allt þetta undir slagorðinu „Kauptu í dag – notaðu í dag!“ Átakið hefur farið stigvaxandi síðustu ár og náði hámarki árið 2021. Afslættir í gegnum átakið „Minni sóun – allt nýtt“ námu tæplega 320 milljónum króna árið 2021.

Ár Selt magn Afsláttur án vsk
2019 657.469,75 247.039.216
2020 715.433,84 297.842.063
2021 753.561,72 316.544.304
Samtals 2.126.465,30 861.425.582
Allar verslanir Samkaupa bjóða stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag og námu afslættir tæplega 320 milljónum króna árið 2021.
Samkaupaliðið

Margt smátt gerir eitt stórt

Þegar kemur að umhverfisvernd skipta „litlu“ atriðin líka máli, þ.e. hver einasta kílóvattstund sem sparast með hagstæðari orkunotkun, hver einasti poki sem er endurnýttur og hver einasti reikningur sem er sendur með tölvupósti en ekki á pappír telja þegar heildarmyndin er skoðuð. Notkun á orkugjöfum eins og rafmagni, heitu og köldu vatni er mæld mánaðarlega fyrir hverja verslun Samkaupa. Þannig er hægt að koma í veg fyrir óþarfa orkunotkun strax og gera viðeigandi ráðstafanir til að nýta þessa auðlind betur.

Öllum frystum í verslunum hefur verið lokað, sem leitt hefur til 40% minni orkunotkunar.

Tilraunaverkefni er hafið í lokuðum kælum verslana sem leitt hefur til 20% minni orkunotkunar. Orka sem kemur frá kælivélum er nýtt til húshitunar ef kostur er.

Burðarpokar verslana eru úr lífniðurbrjótanlegu efni í stað plasts. Árið 2021 voru 3.806.499 maíspokar frá Änglamark og 45.114 pappapokar seldir í verslunum Samkaupa.

Fjölnota pokar hafa verið í notkun í mörg ár en hafa verið gerðir meira áberandi og viðskiptavinir hvattir til að nýta þá. Árið 2021 seldust 53.585 slíkir pokar.  Viðskiptavinir geta skipt út gömlum, fjölnota pokum.

Árlega er starfsfólk í verslunum þjálfað í umhverfismálum í samvinnu við þjónustuaðila Samkaupa.

Rafræn samskipti í bókhalds- og reikningshaldi.

Allir bílar í heimkeyrslu fyrir netverslun eru rafbílar.

umhverfið

Kaupum rétt

Innkaupasvið Samkaupa leggur metnað í að velja vörur sem stuðla að umhverfisvænni verslun og miða að breyttu neyslumynstri viðskiptavina. Dæmi um þetta er Änglamark vörumerkið, sem stendur fyrir sjálfbærni. Vörurnar eru framleiddar úr bestu fáanlegu gæðahráefnum. Þær eru lífrænar, umhverfisvænar og án ofnæmisvaldandi efna.

Änglamark hefur sterka stöðu á Norðurlöndunum og hefur hlotið mikið lof. Í Danmörku hefur merkið náð sjöunda sæti á topp tíu lista YouGov Brand Index (sem mælir upplifun neytenda af vörumerkjum) og fimmta sæti á Women’s Favorite Brand List. Í Noregi hefur Änglamark hlotið nafnbótina „Grænasta vörumerki Noregs“ og sömu viðurkenningu í Svíþjóð átta ár í röð. Með Änglamark náum við að mæta þörfum markaðarins og erum stolt af því að geta boðið upp á margverðlaunað gæðamerki líkt og Änglamark.

umhverfið

Innlend grænmetis- og ávaxtaræktun

Samkaup hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka sölu á íslenskum afurðum. Með góðu samstarfi við bændur og smáframleiðendur færumst við nær markmiðum okkar, tryggjum framboð og fjölbreytileika tegunda, lágmörkum sóun og styðjum við sölu á þeim eftirsóttu matvörum sem eru framleiddar á Íslandi.

Með þéttu neti framleiðenda í öllum landsfjórðungum lágmörkum við kolefnissporin með beinum afgreiðslum í verslanir á nærsvæði hvers framleiðanda.

Nokkur framþróun hefur orðið í afbrigðum margra tegunda, framleiðsluháttum, húsakostum og geymsluskilyrðum sem nú gera okkur kleift að bjóða upp á fleiri íslenskar afurðir árið um kring. Með þessari framþróun náum við að lágmarka innflutning á vörutegundum sem eru framleiddar hérlendis, enda hefur það sýnt sig að neytendur kjósa íslenskt sé þess kostur.

Samkaup hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka sölu á íslenskum afurðum.
umhverfið

Landgræðsla og skógrækt

Samkaup undirrituðu samning við Kolvið árið 2020 til að kolefnisjafna starfsemi félagsins hvert ár. Markmið samningsins er að binda kolefni – CO₂ sem fellur til vegna starfsemi Samkaupa hf. Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með.

Góður árangur náðist í að auka flokkun milli ára og minnka losun kolefnis. Árið 2021 losuðu Samkaup 100 færri tonn af kolefni en árið 2020, þrátt fyrir að verslunum fjölgaði, sem er 20% samdráttur í losun milli ára.

Samkaup gerðu tveggja ára samkomulag við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga 2020 og markmiðið með samstarfinu er að bæta aðstöðu og auka aðgengi að opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skóga til áningar, útivistar og heilsubótar.

Opnir skógar eru nú sautján talsins, staðsettir víðsvegar um landið þar sem boðið er upp á góða útivistaraðstöðu. Unnið verður áfram að þróun og bættu aðgengi þannig að sem flestir landsmenn geti notið þeirra miklu gæða sem felast í skógunum sem eru öllum opnir.

umhverfið

Grænar verslanir Samkaupa

Árið 2021 opnaði Nettó í Mosfellsbæ en það er önnur græna verslun Nettó. „Öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru með grænu skrefin í huga. Kælikerfið er keyrt á koltvísýringi (CO₂) í stað þess að keyra á öðrum kælimiðlum sem eru slæmir fyrir umhverfið. Koltvísýringur er umhverfisvænn kælimiðill og má nálgast víða. Að sama skapi eru öll kælitæki lokuð, sem kemur í veg fyrir óþarfa orkueyðslu. Við erum að sjá gríðarmikinn orkusparnað hjá þessari tegund kælitækja miðað við hefðbundnari tæki sem við erum með í öðrum verslunum. Þegar fram í sækir munum við vinna að því að skipta út öllum okkar kælitækjum fyrir þessa gerð kælitækja,“ sagði Hallur Geir Heiðarsson, rekstrarstjóri Nettó.

„Næsta verkefni hjá okkur er verslun Nettó í Grindavík, þar sem ætlunin er að gera verslunina algerlega græna. Þetta er skemmtileg þróun sem mun halda áfram í hvert sinn sem tækifæri gefst og þegar verslanir þurfa uppfærslu.“ 

Öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru með grænu skrefin í huga.
Hallur Geir Heiðarsson rekstrarstjóri Nettó